Innlent

Bundið slitlag til Ísafjarðar

Tignarleg stálbogabrú verður byggð yfir Mjóafjörð í Ísafjarðardjúpi en með þverun fjarðarins styttist vetrarleiðin milli Ísafjarðar og Reykjavíkur um 33 kílómetra. Með nýjustu ákvörðun ríkisstjórnarinnar stefnir í að bundið slitlag verði komið á veginn til Ísafjarðar eftir þrjú ár. Brúin yfir Mjóafjörð verður eitt glæsilegasta mannvirkið á þjóðvegakerfi landisns. Þetta verður um hundrað metra löng stálbogabrú og mun boginn teygja sig upp í 22 metra hæð yfir sjávarmáli. En reynum nú að átta okkur á því hvar á Vestfjörðum þessi tignarlega brú mun rísa. Mjóifjörður er innarlega í Ísafjarðardjúpi. Á sumrin geta menn stytt sér leið með því að aka yfir Eyrarfjall en þegar sá vegur lokast á haustin verða menn að aka út allt nesið og um Vatnsfjörð sem þar er yst. 1600 milljónir króna eru á vegaáætlun til að ljúka verkinu á næstu þremur árum. Ekki aðeins verður Mjófjörður þveraður heldur verður einnig farið yfir Reykjafjörð við Reykjanes og yfir Vatnsfjarðarháls. Þannig fæst 33 kílómetra stytting, miðað við núverandi vetrareg. Þessi veglína þýðir að þjóðvegurinn mun framvegis liggja allt árið um hið fornfræga höfuðból, Vatnsfjörð, og ennfremur mun vegurinn liggja um hlaðið á Reykjanesskóla. Það leiðir væntanlega til þess að meiri not verða fyrir hin miklu mannvirki sem þar eru, þar á meðal sundlaugina.  Að sögn Magnúsar Jóhannssonar, svæðisstjóra Vegagerðarinnar, er stefnt að því að framkvæmdir hefjist næsta sumar og að þeim ljúki árið 2008. Ný ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að setja 800 milljónir króna af símapeningum í veg um Arnkötludal mun ennfremur þýða að þjóðvegurinn milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, um Djúp, Hólmavík og Búðardal, verður að öllum líkindum allur kominn með bundið slitlag síðla árs 2008, eftir þrjú ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×