Innlent

Skortur er á sykursýkislyfi

Skortur er á sykursýkislyfinu Glucophage á landinu. Innflytjandinn segir ástæðuna vera nýjar íslenskar pakkningar sem hafi þurft að fara sérstaklega yfir. Glucophage er notað við sykursýki af þeirri tegund sem ekki krefst insúlínmeðferðar og er einkum ætlað þeim sem eru of feitir. Samkvæmt upplýsingum frá Icepharma, fyrirtækinu sem flytur lyfið inn, er það reyndar stundum notað af þeim sem hafa eðlilega líkamsþyngd og þá oft með öðrum lyfjum við sykursýki. En nú er svo komið að skortur er á lyfinu. Bessi H. Jóhannesson, sviðsstjóri þjónustusviðs hjá Icepharma, segir að það stafi af því að seinkun hafi verið á íslenskum pakkningum af lyfinu og nú sé verið að skoða í gæðaeftirliti hvort um réttar pakkningar sé að ræða. Bessi segir lyfið komið í nýjar, íslenskar pakkningar og þess vegna sé ferlið mun lengra en annars, ganga þurfi úr skugga um að allt sé rétt sem þar komi fram, bæði utan á pakkningunum og á fylgiseðli. Hann sagðist ekki hafa orðið var við óánægju hjá lyfsölum með seinkunina, hann hefði hreinlega ekki heyrt af henni fyrr en núna. Bessi segir að að öllu eðlilegu verði lyfið komið í lyfjaverslanir á morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×