Innlent

Starfsemin lagfærð að mestu

Norska fjármálaeftirlitið segir að starfsemi dótturfyrirtækis Kaupþings í Noregi hafi verið lagfærð að flestu leyti, eftir að eftirlitið gagnrýndi Kaupþing harðlega fyrir óreiðu í rekstri og fyrir skort á eiginfé. Áfram verður þó fylgst grannt með því að fyrirtækið uppfylli skilyrði fjármálaeftirlitsins ytra. Norska fjármálaeftirlitið gagnrýnir dótturfyrirtæki Kaupþings í Noregi harðlega í nýútkominni skýrslu. Þar segir að fyrirtækið hafi ekki farið að reglum fjármáaleftirlitsins og hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett séu um starfsemi verðbréfa- og fjármálafyrirtækja. Kaupþing í Noregi er sakað um að hafa hagrætt og breytt nauðsynlegum upplýsingum í tengslum við rekstur verðbréfamiðlunarinnar og er gagnrýnt fyrir skort á eiginfé og annað sem varðar starfsemina. Nýr forstjóri, Jan Petter Sissener, tók við stöðu forstjóra dótturfyrirtækis Kaupþings í Noregi í síðustu viku en samkvæmt norskum fjölmiðlum var forveri hans, John Egil Skajem, látinn taka poka sinn í kjölfar skýrslu norska fjármálaeftirlitsins. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, segir að þegar sé búið að leiðrétta það sem gagnrýnt er í skýrslu norska fjármálaeftirlitsins. Öivind Kleven, sem hafði umsjón með gerð skýrslunnar, segir að forsvarsmenn Kaupþings hafi þegar brugðist við hluta gagnrýninnar. Þeir hafi fundað með eftirlitinu í Noregi og svarað þeirri gagnrýni sem fram kemur á starfsemi fyrirtækisins ytra í skýrslunni. Hann segir að Kaupþing hafi lagfært margt af því sem gagnrýnt sé og að fjármálaeftirlitið geri sér vonir um að Kaupþing fari héðan í frá eftir þeim reglum sem gildi um starfsemi verðbréfa- og fjármálafyrirtækja í Noregi. Öivind segir að áfram verði fylgst grannt með því að Kaupþing uppfylli skilyrði norska fjármálaeftirlitsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×