Innlent

Ljósmyndir skemmdar með fúski

Kristinn H. Benediktsson ljósmyndari hefur farið fram á lögbann á útgáfu bókarinnar Fiskisagan flýgur sem bókaútgáfan Skrudda gefur út. Kristinn er höfundur ásamt Arnþóri Gunnarssyni sagnfræðingi. "Bókin er verri en ég hafði óttast," segir Kristinn sem er ósáttur við myndvinnsluna í bókinni. Hann vildi sjálfur stækka og vinna myndirnar, en útgefandinn fór þá leið að skanna þær beint af filmu. Því ferli segist hann hafa haft ástæðu til að vantreysta að því að útgefandinn setti upp sýningu á myndum hans í sumar. "Þær urðu gráar, flatar og líflausar." Í lögbannsbeiðninni telur Kristinn upp mörg dæmi um "eyðileggingu mynda með fúski" og segir höfundarheiður sinn að engu hafðan. Steingrímur Steinþórsson, bókaútgefandi og annar eigandi Skruddu, segir lögbannsbeiðnina koma á óvart, enda telji menn sig hafa komið fram við Kristin af mikilli sanngirni. "En viku áður en bókin átti að fara í prentsmiðju kom hann og vildi hætta við. Ég hef aldrei kynnst slíkum vinnubrögðum," segir hann og bætir við að bókin sé mjög glæsileg og ósanngjarnt hefði verið gagnvart meðhöfundi Kristins að hætta við útgáfuna, auk þess sem stórfé hafi verið lagt í útgáfuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×