Sport

Jerry Rice leggur skóna á hilluna

Jerry Rice hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna í ameríska fótboltanum, 42 ára gamall, en hann hefur gripið flestar sendingar allra leikmanna í sögu NFL deildarinnar. Tilfinningarnar báru þennan mikla kappa ofurliði þegar hann tilkynnti um ákvörðun sína í gær. "Þessi tár sem þið sjáið eru til marks um það hvað ég á eftir að sakna leiksins," sagði Rice. "Þetta hefur verið frábær tími." Rice lék 20 ár í NFL deildinni og setti 38 met í deildinni. Hann hefur gripið 1549 sendingar sem hafa skilað 22.895 stikum og 197 snertimörkum, sem eru allt met í deildinni. Rice vann þrjár ofurskálar með liði San Francisco á 16 árum sínum með liðinu, en auk þess lék hann með Oakland og Seattle. Nú síðast var Rice á mála hjá Denver, en þar tókst honum ekki að vinna sér sæti í liðinu og hefur nú ákveðið að hætta að spila.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×