Innlent

Nýtt íþróttahús rís í Fjarðabyggð

Bygging fjölnota íþróttahúss og líkamsræktarstöðvar er hafin á Reyðarfirði. Stefnt er að því að líkamsræktarstöðin taki til starfa í vetur og að íþróttahúsið verði tekið í notkun næsta vor. Gert er ráð fyrir að kostnaður verði um 400 milljónir króna. Alcoa Fjarðaál, sem stendur að byggingu álvers í Fjarðabyggð, styrkir bygginguna um samtals um 90 milljónir króna. Íþróttahúsið mun rúma knattspyrnuvöll með gervigrasi, 100 metra hlaupabraut ásamt stökkgryfju og 450 manna áhorfendasvæði. Húsið mun einnig nýtast vel til móta- og sýningarhalds. Framkvæmdirnar eru liður í áætlun sveitarfélgasins til að mæta þeirri fólksfjölgun sem er fyrirhuguð, meðal annars vegna starfsemi hins nýja álvers. Með byggingu íþróttahússins batnar aðstaða til íþróttaiðkunar á svæðinu verulega, ekki einungis í Fjarðabyggð heldur á Austurlandi öllu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×