Innlent

Pysjudauði vegna ætisskorts

Dauðar pysjur hafa fundist á að minnsta kosti tveimur stöðum í Vestmannaeyjum. Ætisskortur og norðanáhlaup í vikunni sem leið er meðal þess sem hrakið hefur lundann úr Eyjum. Pysjurnar sitja eftir ófullburða og talsvert færri en vanalega. Eyjamenn segjast taka eftir óvenjufáum pysjum þetta síðsumarið og eins og komið hefur fram í fréttum Stöðvar 2 telur Kristján Egilsson hjá Náttúrugripasafni Vestmannaeyja að kenna megi köldu vori og litlu æti um fáar og ófullburða pysjur. Kristján Hilmarsson, sjómaður og bóndi í Eyjum, varð var við óvenjulega sjón við smölun á dögunum. Hann segir að féð hans sé í lundabyggðum en þar hafi verið mikið af dauðum pysjum um allar brekkur. Þá segir hann einnig mikið vera um pysjudauða suður í Súlnaskeri og að við veiðarnar taki hann eftir mun minna af sandsílum í kringum eyjarnar en vanalega, en sandsíli er aðalfæða lundans. Spurður um sumrin á undan segir Kristján sumarið í fyrra hafa verið mjög gott. Þá hafi mikið af sandsílum gengið inn á Álfseyjarbleyðu og austur í Pétursey en ekkert sé af þeim núna. Kristján hjá Náttúrugripasafninu taldi að norðanhretið fyrir nokkrum dögum hefði orðið til þess að lundinn hraktist úr Eyjum fyrr en ella og hafi því pysjurnar setið eftir í holunum. Vanalega fer lundinn ekki fyrr en pysjan er tilbúin, þ.e. fullburða, en nú er töluvert um að ófullburða pysjur finnist í Eyjum og eiga þær margar hverjar sér ekki viðreisnar von nema þeim verði bjargað af litlum peyjum og pæjum í bænum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×