Innlent

Eldsneytishækkanir og olíukreppa

Áhrifa Katrínar gætir víða, meðal annars hér á landi. Öll stóru olíufélögin hækkuðu í dag verðið á bensínlítranum um fjórar krónur og báru fyrir sig hækkandi verði á heimsmarkaði af völdum fellibylsins. Áður en Katrín gekk yfir New Orleans og á leiðinni þangað gerði hún usla á Mexíkóflóa, þar sem olíuvinnsla fer fram í miklum mæli. Flytja varð starfsfólk olíuborpalla á brott auk þess sem einhverjir pallar og olíuhreinsunarstöðvar skemmdust. Engin framleiðsla er í þessari viku og því gengur hratt á birgðirnar með þeim afleiðingum að verð hefur rokið upp á heimsmarkaði, var nálægt sjötíu og einum dollara á þriðjudaginn en hefur raunar lækkað talsvert, var síðdegis sextíu og átta dollarar og áttatíu sent. Essó reið á vaðið, Shell fylgdi fast á hæla Esso og loks kom Olís. Stóru félögin eru samstíga eins og svo oft áður. Atlantsolía hækkar svo verðið um sömu krónutölu á morgun. Magnús Ásgeirsson, innkaupasviði Esso, sagði að hækkunin af völdum Katrínar hefði verið fljót að skila og sagði einnig að síðan á föstudag hefði heimsmarkaðsverð hækkað um 150 dollara og að ekki væri enn séð fyrir endann á hækkunum og samkvæmt nýjum fréttum af erlendum olíumörkuðum virðist sem verðið sé enn á uppleið.  Þrátt fyrir að birgðirnar væru ekki keyptar á þessu verði þá benti Magnús á að þessi hækkun á heimsmarkaðsverði væri það mikil að hún kæmi til með að vega upp allt annað sem var áður. Hann sagði að það væri erfitt að halda þessu til baka. Hann segist hafa í huga að verðið geti komið til með að lækka og nú sé bara að bíða og sjá hvað gerist.   Sérfræðingar segja eldsneytiskreppu yfirvofandi í Bandaríkjunum og það á versta tíma, þegar olíubirgðir þar eru í lágmarki og verð í hámarki. Í næstu viku verða birtar tölur um neyðarbirgðir stjórnvalda og í kjölfarið má búast við enn meiri hækkun. Að auki er ótti við fleiri fellibylji á markaði þar sem þeir gætu lagt laskaða innviði olíuiðnaðar við Mexíkóflóa í rúst. Og allt hefur þetta áhrif á pyngju íslenskra ökumanna - og miðað við hækkun dagsins verður þeirra áhrifa ekki lengi að bíða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×