Innlent

Ná störfunum til baka á árinu

"Þetta eru vissulega vonbrigði en við erum vongóðir um að ná öllum þessum störfum til baka áður en árið er liðið," segir Ómar Már Jónsson, sveitarstjóri Súðavíkur, en átján starfsmenn þar í bæ misstu atvinnu sína í fyrradag þegar rækjuvinnslan Frosti hætti starfsemi. Fólkinu hefur verið boðin atvinna í bolfisksvinnslu í hraðfrystihúsinu Gunnvör í Hnífsdal og einnig hefur sá möguleiki verið ræddur að fyrirtækið komi að kostnaði ásamt Súðavíkurbæ við það að ferja fólk úr og í vinnu. Ómar Már segir að jafnvel séu líkur á því að það takist að fá störf í bæinn sem fólkið gæti ráðið sig í áður en uppsagnarfrestur þess rennur út hjá Frosta. "Við hófum áttak fyrr á þessu ári með það að markmiði að laða hingað íbúa og rekstraraðila og það er einfaldlega að skila sér," segir Ómar Már en vil þó ekki segja um það á þessari stundu hvaða starfsemi það er sem von er á. Hann segir ennfremur að nú þegar hafi náðst árangur með átakinu því eftirspurn er eftir félagslegum íbúðum í bænum og íbúðarverð hefur hækkað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×