Innlent

Veiðimenn hvattir til hófsemi

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra tilkynnti í gær að hún hefði ákveðið að leyfa rjúpnaveiðar á ný. Reglugerð umhverfisráðuneytisins um rjúpnaveiðar er í samræmi við tillögur Umhverfisstofnunar, nema að veiðitíminn er samræmdur. Veiðitímabilið verður frá 15. október til 30. nóvember, sem eru sjö vikur í stað tíu vikna áður. Auk reglugerðarinnar verða veiðimenn hvattir til að gæta hófs í veiðum með sérstöku átaki. Sölubann veiðibráðarinnar er enn í gildi. "Það kemur sjálfsagt engum á óvart," sagði Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra á blaðamannafundi í gær. Talið er að fimm til tíu prósent rjúpnaveiðimanna hafi veitt um helming allra rjúpna, og taka á fyrir það. Enn fremur er bann við notkun fjórhjóla, vélsleða og annarra torfærutækja ítrekað í reglugerðinni. Markmið ráðuneytisins er að veiðin verði innan við 70.000 fuglar og ljóst var af blaðamannafundinum í gær að menn reiða sig í raun á ábyrgðartilfinningu veiðimanna. "Ég ætlast til að veiðimenn skili inn réttum tölum á veiðiskýrslum," sagði Sigríður. Þessar reglur eru settar til reynslu í eitt ár og árangurinn verður hafður til hliðsjónar haustið 2006.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×