Erlent

Samstaða um lagabreytingar

Þverpólitísk samstaða er um það að breyta lögum um ríkiserfðir í Danmörku þannig að fyrsta barn Friðriks krónprins og Maríu Elísabetar krónprisessu verði erfingi krúnunnar hvort sem það verður stelpa eða strákur. Frá þessu greindi Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, í dag eftir fund með leiðtogum annarra þingflokka. Þar með er ekkert því til fyrirstöðu að ríkisstjórn Danmerkur leggi fram lagafrumvarp sem kveður á um jafnan rétt kvenna og karla til ríkiserfða í Danmörku, en hingað til hefur kona aðeins geta orðið ríkisarfi ef hún á ekki bróður. Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði lagt fram í byrjun október. Þegar það hefur verið samþykkt þarf að breyta stjórnarskránni og verður það gert með þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem fjórir af hverjum tíu Dönum verða að samþykkja breytingarnar á erfðaréttinum. María Elísabet og Friðrik eiga von á fyrsta barni sínu í lok október en ekki er vitað hvort það er stelpa eða strákur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×