Erlent

Katrín veldur usla í New Orleans

Miðja fellibylsins Katrínar er nú um fjörutíu kílómetra austsuðaustur af New Orleans, en áhrifa hans er þegar farið að gæta óþyrmilega í borginni. Vindurinn sem fylgir bylnum finnst í allt að tvö hundruð kílómetra fjarlægð frá miðju hans, en vindhraðinn næst miðjunni er um 250 kílómetrar á klukkustund. Um tíu þúsund manns hafa safnast saman á íþróttaleikvanginum Super Dome í New Orleans, en hluti þaksins er farinn að fjúka og regnvatn seytlar inn. Það er þó ekki vindurinn sem flestir hafa áhyggjur af í borginni þó að hann muni væntanlega valda miklum skaða. Sjötíu prósent borgarinnar liggja undir sjávarmáli í hálfgerðri skál og allt í kring eru ár og stöðuvötn sem talið er víst að flæði yfir stíflugarða sem umlykja borgina. Fyrir utan vatnskemmdir er óttast að eiturefni úr verksmiðjum sem og úrgangur úr skólpkerfi geti blandast flóðavatninu og aukið enn frekar á skemmdirnar. Að minnsta kosti milljón manns yfirgáfu heimili sín í New Orleans og nágrenni og líkist borgin nú mest draugaborg þar sem ekki er köttur á kreiki, að sögn erlendra fjölmiðla sem þar eiga fulltrúa. Tryggingafélög búast við allt að sextán hundruð milljarða króna tjóni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×