Innlent

Kennsludagar of fáir í 50% skóla

Kennslu- og prófdagar reyndust færri en lög gera ráð fyrir í tæplega helmingi framhaldsskóla landsins í fyrra, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Vinnudagar kennara voru færri en gert er ráð fyrir í kjarasamningum í fjörutíu prósentum skólanna. Í reglugerð um starfstíma framhaldsskóla er ákvæði um að kennslu- og prófdagar skuli ekki vera færri en 175. Í 16 skólum af 34 reyndust kennslu- og prófdagar vera færri. Í kjarasamningum kennara er gert ráð fyrir samtals 179 kennslu- og prófdögum en þeir voru á bilinu 173 til 185, eftir skólum, fæstir í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík en flestir hjá kennurum við Framhaldsskólann á Húsavík. Í lögum um framhaldsskóla segir einnig að árlegur starfstími nemenda skuli eigi vera skemmri en níu mánuðir, þar af skuli kennsludagar ekki vera færri en 145. Samkvæmt upplýsingum frá framhaldsskólunum var fjöldi reglulegra kennsludaga skólaárið 2004-2005 á bilinu 140 til 158. Flestir voru þeir í Kvikmyndaskóla Íslands, 158, og í Hússtjórnarskólanum í Reykjavík, 151, en fæstir hjá 2. og 4. bekk Verzlunarskóla Íslands, 140 dagar hjá öðrum bekk og 136 dagar hjá fjórða bekk. Meðalfjöldi reglulegra kennsludaga var 145 sem er degi minna en skólaárið á undan. Tveir skólar, Menntaskólinn Hraðbraut og Snyrtiskólinn, starfa eftir þriggja anna kerfi og eru því ekki taldir með í útreikningunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×