Erlent

Flýja undan Katrínu

Íbúum New Orleans í Bandaríkjunum var í gær skipað að yfirgefa borgina vegna mikillar hættu frá fellibylnum Katrínu sem von er á að gangi yfir borgina í dag. Borgarstjórinn Ray Nagin hvatti íbúa, sem eru um hálf milljón, til að taka viðvörunum alvarlega. New Orleans stendur í dal sem er tveimur metrum fyrir neðan sjávarmál. Aðal hættan stafar því af flóðum ef stíflugarðar sem verja borgina fyrir ánni Missisippi og öðrum vötnum í kringum borgina bresta. Spár sýna að borgin lendi í miðju auga bylsins en í gær hafði kraftur Katrínar aukist og var metinn fimm stig sem er það hæsta á Saffir-Simpson skalanum. Mesti varanlegi vindur sem mælst hefur í Katrínu eru 282 kílómetrar á klukkustund en einstaka vindhviður hafa mælst enn meiri. Sjö hafa þegar látist af völdum bylsins en hann gekk yfir Flórída á fimmtudag. Aðeins þrír fellibylir af þessari stærðargráðu hafa gengið yfir Bandaríkin frá því mælingar hófust en sá síðasti var árið 1992 þegar Andrés gekk yfir Suður-Flórída með þeim afleiðingum að 43 létust. Árið 1935 létust 600 manns þegar fellibylur gekk yfir Flórída Keys en árið 1969 léstust 250 manns þegar fellibylurinn Kamilla gekk yfir strönd Mississippi. Í gærmorgun höfðu götur New Orleans fyllst af bílum á leið út úr borginni en einstefna var sett á stærstu umferðaræðarnar til að flýta fyrir brottflutningunum. Hótel í allt að 240 kílómetra fjarlægð eru fullbókuð en þeir sem geta af einhverjum ástæðum ekki yfirgefið borgina geta leitað skjóls á tíu opinberum stöðum, þar á meðal stærsta íþróttaleikvangi New Orleans. Borgarstjórinn sagði í sjónvarpsræðu sinni að fólk ætti að taka með sér mat sem enst gæti í þrjá til fimm daga Talsmaður fellibyljastofnunarinnar í Miami sagði að mannfall væri óhjákvæmilegt. Ef Katrína kæmi að landi eins öflug og hún var í gær yrði þetta öflugasti stormur sem nokkurn tíma hefði gengið yfir fylkið. Fellibylir verða tíðari og öflugri "Þessir fellibylir myndast vestur af Afríku en viss skilyrði þurfa að vera í sjónum. Það er viss hitamunur milli hafs og lofts. Síðan eflast þeir eftir því sem þeir nálgast vesturströnd Ameríku," segir Þór Jakobsson veðurfræðingur sem telur töluverða hættu stafa frá fellibylnum Katrínu. "Þarna eru gífurlegir kraftar að verki, ekki síst þar sem bylurinn ýfir upp sjóinn og flóðbylgja stefnir að landi," segir Þór en landið sem bylurinn gengur yfir er ákaflega lágt og sums staðar fyrir neðan sjávarmál. Þór segir dofna yfir fellibylum um leið og þeir komi á land, en þeir fái orku frá uppgufun úr hafinu. Hann telur nokkrar breytingar hafa orðið á myndun fellibyla undanfarin ár. "Þeir eru að byrja fyrr, hafa verið öflugri og tíðari," segir Þór sem telur Katrínu nokkuð einstaka enda æði langt síðan fellibylur af þessum styrkleika hafi gengið yfir Bandaríkin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×