Erlent

Bretar vissu af tengslunum

Stjórnvöld í Bretlandi voru vöruð við tengslum milli aukinnar öfgastefnu breskra múslima og stríðsins í Írak fyrir einu ári síðan. Þetta kemur í ljós í bréfi sem breska dagblaðið Observer hefur undir höndum og var skrifað í maí árið 2004 af hátt settum embættismanni í utanríkiráðuneyti Breta til Andrew Turnbull ráðuneytisstjóra. Þar segir meðal annars að utanríkisstefna Breta sé einn aðalhvati íslamskra öfgahópa til að fá nýtt fólk til liðs við sig. Í bréfinu segir enn fremur. "Bresk utanríkisstefna og hvernig hún virðist hafa neikvæð áhrif á múslima um allan heim eykur á reiði og tilfinningu fyrir vanmætti sérstaklega hjá yngri kynslóð breskra múslima." Þá væri stefna Breta í utanríkismálum, sérstaklega í tengslum við friðarferlið í miðausturlöndum og Írak, ein af aðalástæðum öfgastefnu í samfélagi múslima í Bretlandi. Yfirmenn í utanríkisráðuneytinu vilja ekki tjá sig um málið þar sem bréfið lak úr ráðuneytinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×