Erlent

Íbúar New Orleans flýja Katrínu

Íbúar New Orleans flýja nú unnvörpum en fellibylurinn Katrína stefnir þangað hraðbyri. Hún er kröfugusti fellibylurinn sem stefnir á borgina frá 1969. Enn er nokkuð í að Katrína nái landi en hún er orðin mjög öflug og safnar enn í sig krafti. Þegar hún nær landi í kvöld eða fyrramálið verður hún fellibylur af stærðargráðu fjögur, sem þýðir vindraða á milli sextíu og sjötíu metrar á sekúndu. Því óttast yfirvöld í New Orleans bæði miklar skemmdir og mannskaða, ekki síst þar sem borgin liggur mjög lágt, að jafnaði tæpum tveimur metrum lægra en yfirborð sjávar og því hætt við flóðum. Íbúar þar stafla sandpokum við dyr og glugga. Borgaryfirvöld hvetja íbúana til að koma sér í burtu og vilja að ferðamenn séu ekki látnir hafast við neðan við þriðju hæð á hótelum. Þjóðvegir frá borginni eru nú þegar stíflaðir þar sem fólk reynist að komast af hættusvæðinu. Ef fer sem horfir verður þetta mesta óveður í New Orleans frá því 1969, þegar fellibylur af stærð fjögur reið þar yfir. Tvöhundruð fimmtíu og sex fórust þá. Á Mexíkóflóa hefur starfsfólk verið flutt frá tólf olíuborpöllum en það ætti ekki að hafa mikil áhrif þar sem alls eru níu hundruð fimmtíu og þrír pallar á flóanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×