Erlent

Utanríkisstefna styrkir öfgamenn

Bresk utanríkisstefna og stríðið í Írak hafa hjálpað öfgamönnum úr röðum múslíma að safna nýliðum. Þetta kemur fram í skýrslu breska utanríkisráðuneytisins sem var lekið til fjölmiðla. Tony Blair hefur frá hryðjuverkaárásunum í Lundúnum ítrekað fullyrt að ástæður árásanna sé ekki að finna í Írak eða breskri utanríkisstefnu, heldur hafi hryðjuverkamennirnir byggt á afbrigðilegum útúrsnúningum á íslam. Skýrsla breska utanríkisráðuneytisins, sem sunnudagsblaðið Observer komst yfir, bendir til þess að málið sé þó ekki svona einfalt og að Blair hafi verið varaður við öfgahreyfingum ári fyrir hryðjuverkaárásirnar. Þar er sagt að stríðið í Írak kyndi undir öfgum meðal breskra múslíma. Mismunun, misrétti og útilokun valdi vissulega nokkurri spennu meðal múslíma en stríðsreksturinn og bresk utanríkisstefna séu mest áberandi í málflutningi öfgamanna sem leiti nýliða. Ungir, breskir múslímar séu á því að utanríkisstefnan hafi mjög neikvæð áhrif í múslímaríkjum og veldur því að þeim finnast þeir máttlausir og reiðir. Bretland sé komið í sama flokk og Bandaríkin sem krossfaraþjóð og því skotmark hryðjuverkamanna. Breska stjórnarandstaðan hefur í morgun stokkið á málið og sagt að í raun sé ótrúlegt að stjórn Blairs sé ekki reiðubúin að horfast í augu við það sem allir hljóti að sjá, enda blasi það við aðgerðir Breta hljóti að gera öfgamönnum auðveldara að leita nýliða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×