Erlent

Vilja lækka álögurnar

Áfengismál eru á meðal þess sem norskir stjórnmálamenn karpa um þegar rétt rúmur hálfur mánuður er til kosninga. Kristilegi þjóðarflokkurinn hefur hingað til talað fyrir aðhaldi í áfengismálum en á fundi í Levanger í Þrændalögum í vikunni viðurkenndi Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra og leiðtogi flokksins, að stjórnvöld yrðu sennilega að slá af gjaldtöku af áfengi ef svo færi að Svíar drægju úr álögum á sitt vín eins og Göran Person, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur rætt um. "Við búum í alþjóðasamfélagi með opnum landamærum, ekki síst með tilliti til Svíþjóðar. Það þýðir að við getum ekki haldið áfram að takmarka áfengisneyslu með álagningu gjalda, því þá myndi smygl og heimabruggun einfaldlega færast í aukana," sagði Bondevik á fundinum í Levanger. Þá lýsti Bjarne Håkon Hansen, talsmaður Verkamannaflokksins í félagsmálum, þeirri skoðun í samtali við Bergens Tidende að snarfjölga ætti áfengisverslunum ríkisins á landsbyggðinni. Það væri besta leiðin til að koma í veg fyrir að áfengi yrði selt í matvörubúðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×