Innlent

Aron Pálmi fékk skólavist

Aron Pálmi Ágústsson, sem setið hefur í fangelsi í Texas, undanfarin ár, hefur nú fengið leyfi til þess að stunda nám við háskóla í ríkinu. Hann þráir enn að komast til Íslands. Eftir langa fangelsisvist var Aroni Pálma gert að dvelja í stofufangelsi í Beaumont, í Texas fyrir tveimur og hálfu ári. Þar hefur hann búið síðan við lítið athafnafrelsi. Aron Pálmi lauk fyrir löngu inntökuprófi í háskóla í Beaumont og hefur margsinnis sótt um leyfi til skólagöngu, en jafnan verið synjað. Skilorðsfulltrúi hans hefur nú fengið því framgengt að hann væri að sækja skólann og dvelja þar frá því senmma á morgnana til klukkan sjö að kvöldi. Einnig hefur hann aðgang að sundlaug og tækjasal skólans. Á morgun eru sex vikur liðnar frá því Rick Perry, ríkisstjóri í Texas lofaði að svara óskum stuðningsmanna Arons Pálma um að hann fengi að fara til Íslands. Bandarískur lögfræðingur mun í dag eða á morgun ganga á fund ríkisstjórans til þess að kanna hvernig það mál stendur. Í tölvupósti til Einars S. Einarssonar, sem er í stuðningsmannahópi Arons Pálma á Íslandi, segir Aron Pálmi að hann sé glaður yfir skólavistinni, en samt óski hann þess heitast að hann fái að komast aftur til Íslands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×