Innlent

Rafmagn og sjór í skólann

Kennurum og starfsliði í Laugarnesskóla létti mikið í gær þegar rafmagn komst á í skólanum skömmu fyrir hádegi en þar hafði verið rafmagnslaust í tæpan mánuð. "Nú hefst upplýst skólastarf," sagði Guðmundur Þór Ásmundsson skólastjóri himinlifandi þegar hann kveikti ljósið í skólanum. "Við vissum það fyrir en það reyndi á fyrst núna að við eigum góða granna sem hjálpa á ögurstundu," segir Guðmundur en Laugarlækjaskóli lánaði skólanum húsnæði í rafmagnsleysinu. Fleiri straumar en rafmagn eiga eftir að koma skólanum að góðu því sjólögn sem sér Húsdýragarðinum fyrir sjó í selalónið liggur undir skólanum. Þegar framkvæmdir hófust við viðbyggingu skólans fór Helgi Grímsson, fyrrum skólastjóri, þess á leit við Orkuveitu Reykjavíkur að fá aflögn úr sjólögninni til að dæla sjó í væntanlegt fiskabúr sem komið verður upp í skólanum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×