Erlent

Grétu vegna brottflutnings

Ísraelskir lögregluþjónar og landnemar grétu saman þegar brottflutningur hófst frá stærstu landnemabyggð gyðinga á Gaza-svæðinu í dag. 38 ára hersetu Ísraela á Gaza-svæðinu er nú að ljúka og landnemar þar hafa fengið fyrirmæli um að flytja. Þótt meirihluti þjóðarinnar sé hlynntur því að fara frá Gaza eru margir harðlínumenn andvígir því sem og landhemarnir sjálfir. Það voru þó ekki átök heldur tár sem settu svip sinn á það þegar brottflutningur hófst frá Neve Dekalim, stærstu landnemabyggðinni á Gaza. Íbúarnir grétu yfir að þurfa að yfirgefa heimili sín og lögreglumennirnir grétu yfir að þurfa að reka þá á brott. Um 8500 gyðingar bjuggu á Gaza-svæðinu, en margir þeirra eru þegar fluttir á brott. Aðrir streitast þó á móti sem og um 5000 manna hópur mómælenda sem er kominn utan frá og kveðst hvergi munu fara. Það er því viðbúið að einhver átök fylgi brottflutningi. En á meðan gyðingarnir syrgja gleðjast Palestínumenn yfir að fá Gaza-svæðið í hendur. Þeir hafa raunar aldrei ráðið því sjálfir því áður en Ísraelar hertóku það í sex daga stríðinu stjórnuðu Egyptar því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×