Innlent

Allt að tíu þúsund á Dönskum dögum

Talið er að átta til tíu þúsund manns hafi verið á Dönskum dögum sem fram fóru í Stykkishólmi um helgina. Gekk hátíðin vel fyrir sig að sögn Berglindar Þorbergsdóttur, framkvæmdastjóra hátíðarinnar. "Hápunktur Danskra daga var líklega koma danska Eurovisionfarans Jakobs Sveistrup," segir Berglind en Jakob lék bæði fyrir dansi á hátíðarsviði á laugardag og Bryggjuballi sem haldið var um kvöldið. Ball var einnig haldið á bíladekki Breiðafjarðarferjunnar Baldurs í fyrrinótt, auk þess haldið var úti dagskrá fyrir alla aldurshópa á laugardag að sögn Berglindar. Skipulagðri dagskrá var einungis haldið úti á laugardaginn en á föstudag héldu íbúar sjálfir hverfagrill auk þess sem keppt var um best skreyttu götuna. "Það er gaman að sjá hvað fólk er farið að leggja mikið í götuskreytingarnar," segir Berglind. "Fólk tjaldaði öllu sem til er og málaði jafnvel bílana sína."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×