Innlent

Íslam og Ísland lofsungið

"Eins og þú sérð þá erum við ekki að smíða kjarnorkuvopn hérna," segir Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi, hlæjandi meðan hann leiðir blaðamann um aðsetur félagsins í Ármúla, þar sem staðið er fyrir bænastundum á hverjum föstudegi. Salmann telur að múslimar á Íslandi séu á bilinu sjö hundruð til þúsund talsins og fari sífellt fjölgandi. "Við erum ekki í neinu trúboði," segir hann. "Reyndar lítum við á það sem hlutverk okkar að upplýsa Íslendinga um íslam en hver og einn verður svo að gera það sem hugur og hjarta segir honum. Um það bil hundrað Íslendingar hafa gerst múslimar og þeim fer fjölgandi." Hann segir að allnokkrir hafi lesið sig til sjálfir um Íslam og tekið trú í framhaldi af því. Aðrir hafi tekið trú maka síns þegar þeir hafi gifst múslima og enn aðrir hafi kynnst trúnni í gegnum vini erlendis og lagt krossinum fyrir hálfmánan eftir það. "Í rauninni er meirihluti félagsmanna Íslendingar," segir Salmann, "en þá teljum við líka með þá araba sem hafa tekið íslenskan ríkisborgararétt." Formaðurinn segir félagið verða að bregðast við þessari þróun og nú liggur á borði framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar umsókn þess um lóð þar sem moska félagsins mætti standa og leysa bænahúsið í Ármúlanum af. Hann vonast til þess að moskan verði risin innan þriggja ára. Bóndinn fær ekki að giftast annarriÞrjátíu og fjórir tilbiðjendur voru við bænahaldið þegar blaðamann bar að garði. Þar á meðal voru fjórar konur og ein þeirra var Sigrún Valsdóttir en hún gerðist múslimi fyrir sex árum og þylur nú heilu kaflana úr kóraninum á arabísku án þess að vefjast tunga um tönn. "Ég kynntist íslam í gegnum vini þegar ég var að læra í Bandaríkjunum," segir hún. "Svo fór ég að lesa mér til og þá fannst mér sem ég hefði fundið það sem ég hafði alltaf verið að leita að. Það kom mér afskaplega mikið á óvart hvað íslam er falleg trú og hvað mikill friður er í henni." Sigrún býr í Kaíró ásamt egypskum eiginmanni sínum en er nú í faðmi fósturlandsins í fríi. Blaðamanni lék forvitni á að vita hvort ekki kæmi til togstreitu hjá þeim þar sem íslenskar og svo íslamskar hefðir tækjust á. Hvað um til dæmis ef hann giftist nú annarri konu sem trúin heimilar honum að gera? "Þótt fjölkvæni sé til í íslam er það frekar sjaldgæft orðið, enda að mörgu leyti vandasamt nú á tímum. Ég gerði hins vegar samkomulag við minn mann um að ég myndi ekki líða að hann giftist annarri og þar með var það afgreitt," segir hún. Klökknar við manngæsku fólksins hér á landiAziz Naíli er Íslendingur af alsírskum uppruna en hann er hinn ánægðasti með þessa norrænu landa sína sem hann telur ekki svo ólíka alsíringum. "Það er mjög mikil samheldni hérna, allir eru tilbúnir að hjálpa náunganum með öllum mögulegum hætti; ég er alinn upp við slíkan hugsunarhátt eins og flestir múslimar svo þetta kemur sér vel. Í gegnum íslenska bændur hef ég svo kynnst því að virðing manna hér fyrir náttúrunni og gjöfum hennar eru nær samtvinnuð innræti þeirra, eitthvað sem ég þekki frá mínum bernskuslóðum. Hér borða menn einnig nær allt sem af sauðkindinni kemur og eitt dæmið enn um hve margt er sameiginlegt með þessum þjóðum. Kannski er þetta ekki svo skrítið í ljósi þess að fjölmargar konur voru teknar hér á landi í Tyrkjaráninu svokallaða og þær hafa lagt sitt að mörkum í Alsír svo kannski eru þjóðirnar ekki svo óskyldar," segir Aziz hlæjandi. "Ég ber mikla virðingu fyrir fólkinu hér. Ég er til dæmis að vinna á leikskóla með svo dásamlegu fólki að ég er fullur þakklætis að hafa kynnst því. Það kemur mér sífellt á óvart með gæsku sinni, til dæmis passar það sérlega upp á að trufla mig ekki meðan ég þýt í bakherbergi til að fara með bænirnar. Þau skilja í rauninni ekki hvað ég er að gera en virða það samt og við slíkri manngæsku klökkna ég bara en þetta er reynsla mín af fólkinu hér og ég þakka Allah fyrir það." Ísland og íslam Allt virtist renna saman í þessari bænastund. Út um gluggann sáust bílar og fólk á ferli í önnum íslenska hversdagsins. Arabíska hljómaði sungin og sögð frá einbeittum biðjendum af fjölmörgum þjóðernum. Inni á milli voru svo krakkar, múslimar sem og kristnir sem horfðu forvitnir á en voru fljótir að bregða á leik þegar bænahaldi var lokið. Blaðamaður ætlaði sér að spyrja frekar um togstreitu íslenskra og íslamskra siða og hefða en svo rann allt í fjölmenningarlega heild. "Eins og þú sérð þá erum við ekki að smíða kjarnorkuvopn hérna," segir Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi, hlæjandi meðan hann leiðir blaðamann um aðsetur félagsins í Ármúla, þar sem staðið er fyrir bænastundum á hverjum föstudegi. Hann segist ekki merkja neina fordóma í Íslendingum í garð múslima eftir 11. september en hann segir þó fjölmiðla, innlenda sem erlenda, oft lenda í þeirri gildru að dæma alla múslima eftir verkum örfárra einstaklinga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×