Innlent

Íslandsförum ekki síður sinnt

"Við höfum ekki orðið vör við það að danska sendiráðið almennt sinni Íslandsförum síður en öðrum," segir Ásgeir Pétursson skrifstofustjóri almennrar skrifstofu utanríkisráðuneytisins. Hann undrast þau svör danska sendiráðsins í Moskvu, sem fram komu í Fréttablaðinu í gær, að lengri tíma taki fyrir Íslandsfara en til dæmis Danmerkurfara að fá vegabréfsáritun. Að sögn Péturs felst mikil hagræðing í því fyrirkomulagi að danska sendiráðið afgreiði vegabréfsáritanir til Íslands þar sem Danir búi yfir betra upplýsinga- og gagnakerfi. Konstantín Shcherbek, rússneskur læknir búsettur hér á landi, segir hins vegar að varla sé hægt að fá vegabréfsáritanir hjá danska sendiráðinu í Moskvu og hafi ættingjar hans fengið að finna fyrir því. "Ég var vanur að lofsama Ísland og hvetja vini og ættingja til að koma hingað í heimsókn en ég er nú hættur þeim bjarnargreiða þar sem þeir lenda aðeins í vandræðum hjá danska sendiráðinu," segir hann. Aðalheiður Árnadóttir, leyfafulltrúi hjá Útlendingastofnun segir að samskipti stofnunarinnar við danska sendiráðið í Moskvu hafi verið góð en hins vegar sé þar mikill erill sem hugsanlega geti orsakað þennan seinagang.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×