Innlent

Fyrirætlanir tilboðsgjafa óljósar

Enn er óljóst hvað tilboðgjafar ætla sér með svæði hestamannafélagsins Gusts í Kópavogi. Þeir þegja þunnu hljóði og vilja ekkert láta uppi um um fyrirætlanir sínar. Mennirnir tveir sem standa að tilboðum óstofnaðs hlutafélags í hesthúsin á Gustssvæðinu í Kópavogi ofan við Smáralindina heita Guðbjartur Ingibergsson og Kristján Gunnar Ríkharðsson. Tilboðin sem gerð voru í hesthúsin hljóðuðu upp á 80 þúsund krónur fyrir hvern fermetra af gömlum húsum og 100 þúsund krónur fyrir fermetran í nýlegri húsum. Tilboðin voru sögð hafa runnið út í gær en þegar fréttastofa Stöðvar 2 hafði samband við Kristján í dag kom í ljós að tilboðin standa enn opin og segir hann móttökurnar hafa verið mjög góðar. Þar sem einhver hluti hesthúsaeigenda sé staddur erlendis hafi verið óskað eftir því að tilboðsfrestur yrði framlengdur. Kristján segir að þeir hafi sinnt þeirri ósk með því að framlengja tilboðin um óákveðinn tíma. Kristján vildi ekki gefa upp í hver hugmyndin er að nýtingu svæðisins, hvort rífa eigi húsin og byggja þar íbúðar- eða verslunarhúsnæði, en tilboðin voru ekki gerð í samráði við Kópavogsbæ. Leigusamningur hestamannafélagsins Gusts gildir til ársins 2038 og er félagið sagt hafa forkaupsrétt á svæðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×