Innlent

Skattar en álagning hækkar

Tekjur ríkissjóðs af almennum tekjuskatti einstaklinga hafa hækkað jafnt og þétt frá árinu 1999 til ársins 2005 enda þótt skattprósentan hafi lækkað á sama tíma frá 26,41 prósenti árið 1999 niður í 25,75 prósent árið 2004. Skattprósentan lækkaði nú um síðustu áramót um eitt prósentustig og er staðgreiðsla nú því 24,75 prósent og lækkar enn um eitt prósentustig í ársbyrjun 2006 og verður 23,75 prósent og lækkar svo niður í 21,75 prósent í ársbyrjun 2007. Þegar litið er til hlutfalls skatttekna af fjölda gjaldenda við greiðslu tekjuskatts á tímabilinu sést að álagningin hefur farið vaxandi en hafa ber í huga að álagning er ekki endanleg tala innheimtra skatta. Þannig hefur stiglækkandi tekjuskattsprósenta frá árinu 1999 skilað sér í hærri álögðum sköttum en á meðfylgjandi töflu má sjá hvernig álagningin á hvern gjaldanda hefur aukist sem skýrist einkum og væntanlega af hærri launagreiðslum. Sama gildir um fjármagnstekjuskatt en hlutfall hans af fjölda gjaldenda út frá álagningu hefur einnig hækkað en hann var á árinu 1999 aðeins um nítján þúsund krónur á hvern gjaldanda en á síðasta ári rétt tæplega hundrað þúsund krónur en skattprósenta hans hefur hins vegar staðið í stað og er tíu prósent. Sérstakur tekjuskattur eða hinn svokallaði hátekjuskattur hefur breyst töluvert á sama tímabili sem hlutfall af fjölda gjaldenda en hann reiknast sem hlutfall af tekjum yfir tilteknum mörkum og verður lækkaður niður í tvö prósent á næsta ári og felldur niður árið á eftir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×