Innlent

Endurgreitt ef efi vaknar

Það kostar 29.900 krónur að sitja sjö klukkustunda námsstefnu með fyrirlesaranum Brian Tracy í Háskólabíói í október. Hann verður þá hér í sjötta sinn og eys úr gnægtabrunni þekkingar sinnar á stjórnun, sjálfstyrkingu og velgengni. Erindi hans að þessu sinni nefnist Sálfræði velgengninnar; 10 grundvallaratriði til sjálfstyrkingar og er sagt hagnýtt bæði fyrir þá sem áður hafa hlýtt á Tracy og eins þá sem aldrei hafa séð hann. Í tilkynningu frá Stjórnunarfélaginu segir að Tracy sé einn allra besti fyrirlesari heims og hafi aldrei verið betri en einmitt nú. Fyrir þátttökugjaldið fást að auki námsstefnugögn, penni og viðurkenningarskjal en veitingar eru ekki innifaldar. Það má svo heita rúsínan í pylsuendanum að Stjórnunarfélagið ábyrgist ánægju námsstefnugesta. Sé fólk ekki ánægt eða sannfært um að námsstefnan skili því sem til var ætlast getur það gengið út á hádegi og fengið endurgreitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×