Innlent

Á leið til Ísafjarðar með fiskibát

Björgunarskipið Gunnar Friðriksson er nú á hægri siglingu inn Djúpið á leið til Ísafjarðar með hraðfiskibátinn Eyjólf Ólafsson GK í togi eftir að hafa dregið hann á flot úr fjörunni í Aðalvík. Það var um klukkan hálffjögur í nótt að bátsverjarnir tveir óskuðu eftir aðstoð björgunarskipsins. Nokkru áður hafði komið leki að bátnum sem bátsverjar réðu ekki við og stefndi allt í að báturinn sykki. Gripu þeir þá til þess ráðs að sigla honum á fulltri ferð upp í fjöru, en gott veður var á væðinu og ekkert brim. Þangað kom björgunarskipið um klukkan sex í morgun og bjargaði bátsverjunum um borð. Ekkert amaði að þeim. Þegar skipverjar af björgunarskipinu höfðu kannað ástand bátsins, sem var nokkuð laskaður í fjörunni, var ákveðið að ná honum á flot og draga í land. Þegar flæða tók að í morgun náðist báturinn á flot og voru dælur þegar hífðar ofan í hann til að þurrka hann, en sjór hafði hvorki komist í lest né vélarrúm. Lúkarinn var hins vegar fullur af sjó. Var síðan lagt af stað heimleiðis og eru bátarnir væntanlegir til Ísafjarðar eftir hádegi. Ekki er vitað af hverju leki kom að bátnum en grynningar eru víða undan ströndum í Aðalvík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×