Innlent

Kvóti Bílddælinga dregst saman

Nánast engin aukning hefur verið í úthlutun byggðakvóta til Bíldudals frá síðasta ári þrátt fyrir að stærsta fiskvinnslufyrirtækið hafi farið á hausinn í vor. Kvóti Bílddælinga hefur dregist saman um rúm áttatíu prósent frá árinu 1991. Á sama tíma hefur íbúum fækkað um tæplega helming. Í vor var vinnslu Bílddælings, stærsta atvinnurekandans á staðnum hætt, en hjá fyrirtækinu unnu um fimmtíu manns. Um eitt hundrað störf eru á Bíldudal og lætur því nærri að annar hver maður hafi misst vinnuna. Jens Valdimarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Bílddælings, segist vongóður um að fyrirtækið muni hefja starfsemi á ný og það á komandi haustdögum. Nú sé unnið að stöðumati og fljótlega verði rekstraráætlun tilbúin. Jens segir að lítið þurfi til svo fyrirtækið geti hafið starfsemi á ný. Talað hafi verið um að þörf sé á 250 tonna kvóta og fjármagni upp á 30-40 milljónir króna. Jens segir nauðsynlegt að styrkja grundvöll fyrirtækja á landsbyggðinni en það segi sig þó sjálft að byggðarlög sem hafa misst kvóta sinn eigi erfitt með að fá hjólin til að snúast á ný. Til þess sé nauðsynlegt að fyrirtæki fái að fjárfesta í kvóta og þá geti menn fyrir alvöru sótt sjóinn á ný. Rækjuveiðar í Arnarfirði hafa dregist stórlega saman og því skiptir starfsemi Bílddælings enn meira máli fyrir byggðarlagið. Jens segist vonast til að vinna að fyrirtækinu ljúki um miðjan mánuðinn þannig að hægt verði að leggja fyrir klárar áætlanir í lok mánaðarins. Hann voni því að hægt verði að fara af stað aftur í byrjun nýs kvótaárs, í byrjun september. Árið 1991 nam fiskveiðikvóti Bílddælinga rúmum fjögur þúsund tonnum en í fyrra var kvótinn tæp átta hundruð tonn. Þá hafa um fimmtíu manns flust frá Bíldudal frá síðustu áramótum. Þar eru íbúar nú um tvö hundruð, en árið 1991 bjuggu þar um 370 manns. Tæplega helmingur íbúa staðarins hefur því flust brott á síðustu 15 árum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×