Innlent

Reyna að kaupa hesthús Gusts

Hesthúsaeigendum í Kópavogi hafa að undanförnu borist tilboð frá tveimur mönnum sem vilja kaupa upp hús þeirra. Ekkert samráð var haft við stjórn hestamannafélagsins og segir formaður þess að um aðför að félaginu sé að ræða. Tilboðið var sent hesthúsaeigenum í lok júlí og eru boðnar 80 þúsund krónur fyrir hvern fermetra á gömlum húsum og eitt hundrað þúsund krónur fyrir fertmetrann í nýlegri húsum. Yfir sextíu hesthús eru á svæðinu sem er í næsta nágrenni Smáralindar. Aðspurð um viðbrögð Gusts við tilboðunum segir Þóra Ásgeirsdóttir, formaður félagsins, að í Kópavogi sér blómlegt hestamannafélag og það sé vel skiljanlegt að allir vilji koma í Gust. Svæðið sé gott og skiljanlegt sé að þangað vilji allir koma. Þóra segir að um aðför að félaginu sé að ræða þar sem ekkert samráð var haft við stjórnina. Hún segir það verra því þetta sé aðför að félagi sem sé mjög öflugt og stjórn félagsins hefði gjarnan vilja vita af þessu áður. Svona vinni þó menn og þeir verði að hafa það eins og þeir vilji. Aðspurð hvort hún telji að hestamenn muni selja eignir sínar segir Þóra að hún telji það afar ósennilegt. Annar mannanna sem standa að tilboðinu sagði að Kópavogsbær kæmi hvergi nærri þessum tilboðum. Hann vildi ekki svara því hvaða hugmyndir mennirnir hefðu um uppbyggingu á svæðinu. Tilboð mannanna rennur út í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×