Erlent

Al-Kaída hótar frekari árásum

Mikill viðbúnaður var hjá lögreglunni á lestarstöðum í London í gær, en frekari sprengjuárásum hafði verið hótað. Fjórar vikur eru liðnar síðan 52 létust í sjálfsmorðsprengingum í lestum og strætisvagni í London. Næstráðandi al-Kaída Ayman al-Zawahri hótaði í gær frekari árásum í London, í ávarpi sem birt var á sjónvarpsstöðinni Al-Jazeera. Þá fagnaði hann árásinni fyrir fjórum vikum og sagði Blair bera ábyrgðina, vegna ákvörðunar hans um að senda breska hermenn til þess að taka þátt í innrásinni í Írak. Hann sagði þó ekki að hann bæri ábyrgð á árásinni. Þá sagði al-Zawahri að tugþúsundir bandarískra hermanna muni láta lífið í Írak. Þrátt fyrir þessar hótanir og áberandi vopnaða lögreglumenn í miðborg London, ferðuðust íbúar borgarinnar um eins og ekkert væri. Einn þeirra Pat Wish sagði að fólk virtist ekki hrætt. Það væri að lesa blöðin í lestinni eins og venjulega. Annar Robert Allen, sem var að bíða eftir lestinni á King's Cross lestarstöðinni, sagðist vera svolítið óöruggur. Hann fylgdist betur með fólki sem væri í lestinni til að sjá hvað það væru að gera.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×