Erlent

Gríðarleg öryggisgæsla í lestunum

Gríðarleg öryggisgæsla var í neðanjarðarlestum Lundúna í gær þegar tvær leiðir, sem verið hafa lokaðar síðan mannskæðar hryðjuverkaárásir voru gerðar á borgina þann 7. júlí, opnuðu á ný. Hundruð lögregluþjóna gættu lestarstöðva borgarinnar í þeim tilgangi að draga úr líkum á frekari árásum. Lögreglan lokaði í gær nokkrum götum í miðborg Lundúna, eftir að tilkynning barst um eld í strætisvagni 205 á Euston Road, nærri King's Cross lestarstöðinni. Síðar um daginn kom tilkynning frá lögreglunni um að eldurinn hafi líklega kviknað vegna vélarbilunar og engin sprenging hafi orðið. Ekki urðu slys á fólki. Hazel Blears, innanríkisráðherra Bretlands, fundaði í gær með fulltrúum múslíma en til stendur að reyna að draga úr þeirri reiði ungra múslíma sem veldur því að þeir eru tilbúnir til þess að framkvæma árásir á borð við í síðasta mánuði. Þá eru múslímar ósáttir við ónæði sem þeir þurfa að þola vegna rannsóknar lögreglu en lögregla segir rannsókn mála ekki beinast gegn kynþáttum heldur þeim sem talið er að eigi aðild að málum. Sautján manns voru í gær í haldi bresku lögreglunnar í tengslum við sprengjutilræðin 21. júlí. Þremur var þó í gær leyft að fara en þeir voru handteknir í áhaupum lögreglu vegna tilræðanna. Þá hafa bresk stjórnvöld reynt að fá Osman Hussain, sem grunaður er um tilraun til sprengjuárásar á Shepherd Bush lestarstöðinni, framseldan frá Ítalíu þar sem hann var handtekinn fyrir helgina. Framsal Hussain gæti þó tafist þar sem hann sætir nú rannsókn ítalskra yfirvalda sem beinist meðal annars að hugsanlegum tengslum verslunar bróður Hussain við al-Kaída. Hinir þrír sem grunaðir eru um tilræðin eru í haldi bresku lögreglunnar og hefur breska dagblaðið The Times eftir rannsóknarlögreglumönnum Scotland Yard að tafir á framsali Hussain geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir rannsókn hryðjuverkanna, sem beinist nú fyrst og fremst að því að finn tengsl milli hópanna sem stóðu að hvorri árás.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×