Erlent

Neitar að hafa drepið börnin

Þýsk kona sem var handtekin eftir að lík níu nýfæddra barna fundust grafin í garði hennar, viðurkennir að hafa fætt börnin en neitar að hafa ráðið þeim bana. Konan, sem er þrjátíu og níu ára gömul fæddi börnin á árunum 1998 til 2004. Ákæruvaldið í héraðinu segir að konan viðurkenni að hafa fætt börnin en neitar því að hún hafi beitt ofbeldi til þess að drepa þau. Ekki er sagt hvaða skýringu hún hafi gefið á dauða þeirra. Hún man óljóst eftir að hafa fætt og síðan komið tveimur fyrstu börnunum fyrir í blómapottum án þess að geta útskýrt dauða þeirra. En um börn frá númer 3-9 vill hún ekki tjá sig. Hún segist lítið muna þar sem hún hafi verið afar drukkin, bæði meðan á fæðingu þeirra stóð og á eftir. Hún segist hafa drukkið til að lina hríðarverkina. Þýska þjóðin er harmi slegin yfir þessum atburði og hann hefur vakið upp umræðu um félagslegar aðstæður í niðurníddum hluta fyrrum Austur-Þýskalands, þar sem þetta gerðist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×