Erlent

Bjóðast til að ná í geimfarana

"Ef við vinnum mjög hratt getum við flutt geimfarana níu til jarðar í janúar eða febrúar með þremur Soyuz-geimförum," sagði Nikolai Sevastyanov, yfirmaður RKK Energia, rússnesks geimvísindafyrirtækis í ríkiseigu. Hann segir að telji Bandaríkjamenn ekki óhætt að fljúga geimferjunni Discovery til jarðar geti Rússar séð um að bjarga geimförunum úr himingeimnum. Það yrði reyndar ekki auðunnið verk fyrir Rússana að sækja geimfarana níu, sjö um borð í Discovery og tvo í alþjóðlegu geimstöðinni. Rússarnir þyrftu að byggja geimförin því þau eru ekki tilbúin núna. Geimförin sem Sevastyanov vill nota eru af gerðinni Soyuz sem leit fyrst dagsins ljós á sjöunda áratug síðustu aldar. Þau eru frábrugðin bandarísku geimferjunum að því leyti að þau geta ekki lent á flugvöllum heldur svífa þau til jarðar og eru því einnota. Að auki eru þau mjög þröng og geimfararnir gætu hvorki hreyft legg né lið meðan á flugi Soyuz stendur. Þó að hugmyndin þyki óraunhæf, geimfararnir hafa hvorki mat né vatn til svo langrar dvalar úti í geimnum, er hún til marks um það sjálfstraust sem rússneskir geimvísindamenn hafa endurheimt á ný síðustu árin. Í hálft þriðja ár eftir að Columbia sprakk á leið til jarðar sáu Rússar alfarið um flug til og frá alþjóðlegu geimstöðinni. Sérfræðingar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA reyna nú að meta hversu alvarlegar skemmdirnar sem urðu á Discovery í flugtaki eru. Einangrunarbútar sem rifnuðu af sínum stað hanga utan á geimferjunni og kann að fara svo að gera verði við þær áður en reynt verður að fljúga geimferjunni til jarðar. Það yrði þá í fyrsta skipti sem geimfarar yrðu að framkvæma slíka viðgerð á neðri hluta geimferju úti í geimnum. Sérfræðingar stofnunarinnar voru ekki á eitt sáttir um hvort gera þyrfti við skemmdirnar eða hvort óhætt væri að fljúga Discovery til jarðar án viðgerðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×