Erlent

Blair í trúmálin

Trúmál eru efst á listanum yfir það sem Tony Blair ætlar að snúa sér að eftir að hann hættir sem forsætisráðherra fyrir næstu kosningar. Sögusagnir voru um að Blair væri að endurskoða ákvörðun sína um að segja ekki af sér forsætisráðherraembætti og leyfa Gordon Brown að taka við, eða þá að hann hyggðist sitja áfram á þingi og gera Brown lífið leitt sem óbreyttur þingmaður. Blaðið Guardian hefur fyrir því heimildir að Blair ætli að hætta sem forsætisráðherra og þingmaður fyrir næstu kosningar og segir hann hafa rætt fyrirætlanir sínar við fjölskyldu sína og nána vini. Fregnir Guardian slá á þrálátar sögusagnir um framtíð Blairs. Hermt er að hann hafi ekki heldur áhuga á ferli í alþjóðastjórnmálum innan Evrópusambandsins eða Sameinuðu þjóðanna. Hann er sagður ætla að rita sjálfsævisögu sína og snúa sér í vaxandi mæli að trúmálum, einkum því að auka samskipti og skilning á milli ólíkra trúarbragða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×