Innlent

Varnarliðsmenn skemmi leigubílana

Leigubílstjórar á Suðurnesjum íhuga að hætta að þjónusta varnarliðsmenn á kvöldin og um helgar. Það hefur færst í aukana að þeir beri á sér ýmis vopn þegar þeir fara út að skemmta sér. Dæmi eru um að leigubílar séu skemmdir og lausum munum stolið. Tvö nýleg dæmi eru um að varnarliðsmenn hafi skorið á sæti leigubíla. Gunnar Pálsson er einn þeirra sem mátt hefur þola skemmdarverk og er hann í engum vafa um að þar hafi verið varnarliðsmenn á ferð því hann hafi ekki keyrt neina aðra sem beri hnífa á sér alla jafna. Skaðabótanefnd utanríkisráðuneytisins sér um að borga öll þau tjón sem varnarliðsmenn valda en þangað sendi Gunnar kröfu um bætur vegna skemmda á bifreið sinni, kröfu upp á 200 þúsund kr. Svörin voru alfarið neitandi að sögn Gunnars þar sem hann hefði ekki getað bent á þann sem á að hafa framið ódæðið. Þetta er ekki eina tilfellið um skemmd á leigubíl því varnarliðsmanni var gert að greiða leigubílstjóra skaðabætur eftir að hann hafði skorið stórt stykki úr sæti bílsins. Áhöldin sem notuð eru, og fundist hafa í bílum, eru hnífar af öllum stærðum og gerðum og segir Gunnar þá eingöngu koma frá varnarliðsmönnum. Gunnar segist óttast um líf sitt þegar hann aki varnarliðsmönnum á kvöldin og hann sé orðinn hræddur við að taka þá upp í. Þá er verið að ræða það á meðal leigubílstjóra að hætta að þjónusta þá á kvöldin og um helgar. Talsmaður varnarliðsins sagði í samtali við fréttastofu að þessi mál kæmu öðru hvoru upp. Ef hermenn verði uppvísir að slíkum verknaði sé þeim refsað í samræmi við alvarleika brotsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×