Erlent

Nýjar upplýsingar um atburðina

Átta árum eftir að Díana Bretaprinsessa týndi lífi í bílslysi í París eru komnar fram nýjar upplýsingar um atburði næturinnar þegar hún dó. Díana var að tala í farsímann sinn þegar Mercedes Benz bifreiðin sem hún var í ásamt ástmanni sínum Dodi Fayed lenti í slysi með þeim afleiðingum að þau létust bæði. Scotland Yard hefur tekist að rekja símtalið og fundið þann sem Díana var að ræða við. Viðmælandinn hefur þegar verið yfirheyrður en ekki liggur fyrir hvaða upplýsingar hann gat gefið. Lögreglan vill meðal annars vita hvað viðmælandinn heyrði, hvernig hugarástand Díönu var og hvað hún sagði. Þær upplýsingar gætu varpað ljósi á ýmsar samsæriskenningar sem komið hafa fram frá því slysið var 31. ágúst 1997. Opinber rannsókn í Frakklandi leiddi í ljós að slysið mætti rekja til ofsaaksturs og þess að bílstjórinn, Henri Paul, var drukkinn. Breska lögreglan hefur hins vegar komist að því að Paul var á mála hjá frönsku leyniþjónustunni og hafði aðeins skömmu fyrir bílferðina afdrifaríku átt fund með umsjónarmanni sínum þar. Franska lögreglan hefur einnig komist að því að Díana var ekki barnshafandi þegar hún lést; hún hafði ekki í hyggju að trúlofast eða ganga í hjónaband með Dodi Fayed; breska leyniþjónustan var ekki að fylgjast með Díönu þegar hún lést; og að Dodi og Díana hefðu lifað af hefðu þau verið í bílbeltum. Þess er nú beðið að greint verði frá því hvaða upplýsingar viðmælandi Díönu í símtalinu getur veitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×