Erlent

Ferð Discovery lengist

Geimskutlan Discovery verður deginum lengur í geimferð sinni en til stóð en stjórnendur Geimferðastofnunarinnar NASA segja enga hættu steðja að henni þegar hún snýr aftur inn í gufuhvolfið og býst til lendingar. Sérfræðingar hafa þegar sagt að níutíu prósent yfirborðs skutlunnar séu í góðu lagi og er búist við því að á morgun verði þau tíu prósent sem eftir eru lýst í lagi líka. Því segja stjórnendur NASA enga hættu steðja að henni þegar hún snýr aftur inn í gufuhvolfið og býst til lendingar. Hörð gagnrýni heyrist þrátt fyrir þetta. Plastfrauðbútar sem flugu af eldsneytistanki Discovery í flugtaki gætu hafa valdið mun alvarlega vandamáli og í raun leitt til svipaðra örlaga og Columbia hlaut 2003. Það þykir til marks um að innanhúsmál NASA séu enn í ólagi að ekki hafi verið komið í veg fyrir þetta vandamál en samkvæmt New York Times í dag leiddu sérfræðingar NASA aldrei hugann að því, þar sem það hafði aldrei komið upp. Ástæðan fyrir því að ferð Discovery verður lengd er sú að flytja á meira magn birgða inn í Alþjóðlegu geimstöðina en upphaflega stóð til þar sem óvíst er hvenær geimskutlu verður aftur hleypt í loftið. Geimfararnir taka með sér þrettán tonn af geimdrasli til baka en það hefur safnast fyrir í geimstöðinni frá því að skutla var þar síðast á ferð í nóvember 2002.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×