Innlent

Ellefu fíkniefnamál á Akureyri

Ellefu fíkniefnamál hafa komið upp á útihátíðinni Ein með öllu á Akureyri á síðasta sólarhring þar sem í hverju tilfelli var um lítilræði af fíkniefnum að ræða. Lögreglumenn úr fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík aðstoða starfsbræður sína á Akureyri við eftirlit með fólki. Þá voru fimm fluttir á slysadeild eftir líkamsárásir en töluvert var um slagsmál í bænum í nótt. Að sögn lögreglunnar á Akureyri er mjög mikið af fólki í bænum og var nóttin erilsöm. Þrír voru teknir grunaðir um ölvun við akstur fram til klukkan sex í morgun. Nóttin var mjög róleg hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum og komu engin alvarleg mál upp. Töluverð úrkoma var á Þjóðhátíð í Eyjum fram til klukkan þrjú í nótt og að sögn lögreglunnar er dalurinn talsvert blautur. Á milli níu og tíu þúsund gestir eru á Þjóðhátíð í Eyjum og er búist við enn meiri fjölda í kvöld þegar Árni Johnsen stjórnar brekkusöng. Á unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer í Vík í Mýrdal var nóttin tíðindalaus og allir farnir að sofa um miðnætti. Öðru máli gegndi um útihátíðina á Kirkjubæjarklaustri en þar eru um þrjú þúsund manns á óskipulagðri útihátíð. Að sögn lögreglunnar á Vík þurfti lögreglan að hafa afskipti af slagsmálum nokkrum sinnum en engin alvarleg líkamsárásarmál komu upp. Segir lögreglan að miðað við fólksfjölda á Klaustri verði nóttin að teljast góð. Mikil ölvun var á Neistaflugi í Neskaupsstað í nótt og höfðu lögreglumenn í nógu að snúast. Eitt fíkniefnamál kom upp og ein líkamsárás var kærð. Á milli tvö og þrjú þúsund manns eru í Neskaupsstað og fjölgaði töluvert á staðnum seinnipartinn í gær. Tveir gistu fangageymslur í nótt á Siglufirði og var nóttin töluvert annasöm hjá lögreglunni. Þrír voru teknir með fíkniefni til eigin nota í gær en talið er að um þrjú þúsund manns séu á Síldarævintýrinu. Gestir á Álfaborgarséns á Borgarfirði eystra létu heldur ófriðlega eftir dansleik sem þar var haldinn í nótt. Lögreglan þurfti ítrekað að hafa afskipti af hópi manna vegna slagsmála en enginn slasaðist þó alvarlega í átökunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×