Erlent

Norræn innrás í danska háskóla

MYND/Vísir
Danir eiga erfiðara með að komast inn í háskóla í Danmörku vegna aukinnar eftirsóknar Norðmanna og Svía. Lægri inntökuskilyrði eru sögð skýring þessarar svokölluðu norrænu innrásar. Íslendingar kannast við það að fá fyrst svar í lok júlí um skólavist í Danmörku. Það er því skólatími hjá dönskum fjölmiðlum sem velta upp alls konar tölfræði þessa dagana. Dagblaðið Politiken tekur dæmi um fjölda Norðmanna og Svía sem fengu inngöngu í danska háskóla þetta árið og nefnir þróunina norræna innrás. Í dýralækningum eru fjörutíu prósent nemenda Norðmenn og Svíar, rúmlega þrjátíu prósent í arkitektarnámi og um tuttugu prósent í hönnunarnámi. Lágmarkseinkunn er hærri í Noregi og Svíþjóð og þess vegna leitar fólk sem kemst ekki inn þar yfir til Danmerkur. Það þýðir hins vegar að árlega er þúsundum Dana neitað um skólavist en reglur ESB kveða á um að norrænir nemendur, og nemendur frá ESB-löndum, eigi jafnan rétt. Mikið atvinnuleysi er meðal arkitekta og hönnuða svo það veldur Dönum ekki áhyggjum en aðra sögu er að segja af læknum manna og dýra. Stjórnandi hjá Kaupmannahafnarháskóla hefur áhyggjur af þróuninni og segir í samtali við Politiken að það sé ekki sanngjarnt að Danir komist ekki inn vegna ásóknar Svía í læknisfræðina. Hann segir að um tuttugu prósent lækna sem þeir útskrifi komi til með að vinna í Svíþjóð og svo geti farið að skortur verði á læknum í Danmörku í framtíðinni þannig að Danir þurfi jafnvel að leita sér læknisaðstoðar í Svíþjóð, hjá læknum sem lærðu í Danmörku. Þrátt fyrir að Íslendingum í námi í Danmörku hafi fjölgað undanfarin ár getur þjóðin huggað sig við það að vera ekki tekin með í umræðu um norræna innrás.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×