Innlent

Hlaup hugsanlega hafið

Vísbendingar eru um að Skaftárhlaup hefjist á næstu dögum. Ríkissjónvarpið sagði hlaup hafið fyrir nokkrum mínútum en Veðurstofan vill ekki staðfesta það. Hún sagðist þó fyrr í dag vilja vara ferðalanga á þessum slóðum við. Engin mannvirki eru í hættu. Að sögn Steinunnar Jakobsdóttur, jarðfræðings á Veðurstofu Íslands, er vitað að það er mikið vatn í kötlunum og svokallaðir ísskjálftar hafa hreyft við jarðskjálftamælum á Grímsfjalli og í Skrokköldu. Steinunn tekur fram að það sé ekki öruggt að hlaup sé að hefjast og alla jafna hefði Veðurstofan beðið með að láta vita af þessari virkni þar til menn vissu fyrir víst hvað væri að gerast. Nú sé hins vegar verslunarmannahelgi og margir á ferð á þessum slóðum og því rétt að beina því til fólks sem er á ferð í grennd við Tungnár-, Síðu-, og Skaftárjökul að hafa varann á; ef það finni sterka brennisteinslykt, sem oft er undanfari hlaupa, sé betra að forða sér þar sem eiturverkun getur orðið af gasinu sem kemur undan jöklinum. Skaftá hleypur yfirleitt á 2-3 ára fresti og segir lögregla að hlaup eigi ekki að hafa nein áhrif á byggð á svæðinu, eða þjóðveginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×