Innlent

Greiðir 123 milljónir í skatt

Frosti Bergsson kaupsýslumaður er sá einstaklingur sem ber hæstu opinberu gjöldin árið 2005. Hann greiðir nærri 117 milljónir króna í tekjuskatt en liðlega þrjár milljónir króna í útsvar. Álagningin nemur alls tæpum 123 milljónum króna. Frosti lærði rafeindatæknifræði í Danmörku og kynntist tölvum í upphafi þróunar einkatölvunnar. Hann stofnaði fyrir um 20 árum fyrirtækið Opin kerfi sem varð eitt stærsta og framsæknasta tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki landsins. Fyrirtækið varð meðal annars útibú Hewlett Packard á Íslandi. "Ég seldi hlutabréfin mín í Opnum kerfum í fyrra og það er nú aðalástæðan fyrir svo háum gjöldum nú," sagði Frosti í samtali við Fréttablaðið í gær. Frosti á og rekur eigið fjárfestingarfélag og á hlut í bílafyrirtækinu Heklu, lyfjaverksmiðju á Spáni, auk þess að vera hluthafi í Verðbréfastofunni, en þar er hann stjórnarformaður. Frosti var jafnframt meðal bjóðenda í Símann og myndaði Nýja símafélagið ehf. ásamt Atorku group og fleirum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×