Innlent

Lóan komin og farin

Lóan er komin, búin að kveða burt snjóinn, farin aftur - og hvað þá? Hér er um að ræða sandlóuna Signýju sem kom hingað í vor, verpti við flugvöllinn í Holti í Önundarfirði, ól upp unga sína og tók að því búnu flugið til Frakklands þar sem til hennar sást fyrir nokkrum dögum. Eftir hvíld þar heldur hún svo væntanlega til Vestur-Afríku þar sem hún mun eyða vetrinum í sól og sumaryl. Upphaflega merktu menn frá Náttúrustofu Vestfjarða sandlóuna við Holtsflugvöll árið 2003 með svonefndu litamerki og gáfu henni nafnið Signý. Eftir það fréttist ekkert af henni í útlöndum en hún skilaði sér aftur í Önundarfjörðinn í fyrra, verpti þar og kom nokkrum ungum á legg með maka sínum. Þennan leik endurtók hún í vor og kom fjórum ungum á legg, eða væng, með aðstoð sama makans og í fyrra. Nokkuð er síðan hún sást þar síðast en þá fréttist af henni í París og er þetta í fyrst skipti sem litmerkt sandlóa héðan sést erlendis. Sandlóan er náskyld heiðlóunni, þeirri sem kveður burt snjóinn, en fer heldur fyrr til vetrarstöðva í útlöndum en heiðlóan. Heiðlóan er þó líka farin að tygja sig til brottfarar sem sést af því að hún er farin að hópa sig og æfa langflug.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×