Erlent

Discovery tengdist geimstöðinni

Geimferjan Discovery tengdist alþjóðlegu geimstöðinni í gær, eftir að hafa tekið snúning alveg upp við hana til þess að unnt væri að taka nærmyndir af neðra byrði ferjunnar úr myndavél í stöðinni. Myndatakan er liður í rannsóknum á hugsanlegum skemmdum á ytra byrði geimferjunnar vegna hluta sem losnuðu af burðareldflauginni í flugtaki. Bandaríska geimferðastofnunin leggur nú mikið upp úr þessum rannsóknum til að tryggja að áhöfn Discovery tefli ekki á tvær hættur er hún snýr aftur til jarðar, og til að komast til botns í því sem nákvæmlega gerðist þegar geimferjan Columbia sundraðist er hún flaug inn í gufuhvolfið fyrir tveimur og hálfu ári. Eftir snúninginn, sem leiðangursstjóri Discovery Eileen Collins stýrði, tengdist geimferjan geimstöðinni vandkvæðalaust. Fagnaðarfundir urðu í stöðinni er menn úr áhöfn Discovery hittu geimfara sem dvelja í geimstöðinni. Geimstöðvarstjórinn Sergei Krikalev bauð þá velkomna að rússneskum hætti með brauði og salti. Gangi allt að óskum er gert ráð fyrir að Discovery snúi aftur til jarðar eftir 10 daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×