Innlent

Eignir heimilanna 2000 milljarðar

Gjaldstofn tekjuskatts og útsvars nam 526,8 milljörðum króna og hafði vaxið um 9,0% frá fyrra ári. Samanlögð álagning tekjuskatta og útsvars nemur 145,2 milljörðum króna og hækkar um 12,3% frá fyrra ári. Tæplega 158 þúsund framteljendur greiða samtals 67,1 milljarð króna í almennan tekjuskatt og skattgreiðsla á hvern gjaldanda hefur vaxið um 8,2% milli ára. Gjaldendur útsvars eru 226.896, eða nær 97% allra á grunnskrá framteljenda. Sérstakan tekjuskatt (hátekjuskatt) greiða 17.456 gjaldendur, samtals 1.411 milljónir króna. Þrátt fyrir að skatthlutfallið hafi verið lækkað frá fyrra álagningarári úr 5 í 4% hækkar álagning um 3,9%, og gjaldendum fjölgar um 16,5%. Álagður fjármagnstekjuskattur einstaklinga nemur 7,6 milljörðum króna og hækkar um 17,7% milli ára. Greiðendur fjármagnstekjuskatts eru liðlega 77 þúsund talsins og fjölgar lítillega milli ára. Rúmlega helmingur skattsins er álagning á arðgreiðslur, vexti og leigutekjur, en afgangurinn er álagning á söluhagnað hlutabréfa, en liðlega 11.400 framteljendur telja fram slíkar tekjur. Framtaldar eignir heimilanna námu tæplega 2.000 milljörðum króna í lok síðasta árs og höfðu þær aukist um 15,4% frá fyrra ári. Skuldir heimilanna námu alls um 760 milljörðum króna í árslok 2004 og höfðu þær vaxið um 15,2% frá fyrra ári. Barnabætur nema 5 milljörðum króna og eru sem næst óbreyttar milli ára. Þeim sem þeirra njóta fækkar um 2,8%. Vaxtabætur nema 5,2 milljörðum og eru þær óbreyttar milli ára. Framteljendum sem þeirra njóta fækkar um 6,7% og eru þeir um 54 þúsund. Af úthlutuðum vaxta- og barnabótum kemur 5,1 milljarður til útborgunar nú um mánaðarmótin eftir skuldajöfnum á móti ógreiddum sköttum. Til viðbótar verður greidd út ofgreidd staðgreiðsla af tekjum síðasta árs, samtals 2,4 milljarðar króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×