Erlent

Norður-Kóreumenn setja skilyrði

Fulltrúar Norður-Kóreustjórnar sögðu í gær að hún myndi þá aðeins hætta við kjarnavopnaáætlun sína ef sú ógn sem hún telur Kóreuskaganum stafa af bandarískum kjarnavopnum er fjarlægð og samskipti við Bandaríkjastjórn færð í eðlilegt horf. Frá þessu greindi suður-kóreska fréttastofan Yonhap. Norður-Kóreumenn krefjast þess ennfremur að Bandaríkjastjórn hverfi frá öllum áformum um að steypa kommúnistastjórninni í Pyongyang, að hún komi á kerfi sem geri friðsamlega sambúð mögulega og lofi því að beita ekki kjarnorkuvopnum. Að því er fullyrt er í frétt Yonhap er þetta haft eftir formanni viðræðunefndar Norður-Kóreustjórnar, varautanríkisráðherranum Kim Kye Gwan, á öðrum degi nýrrar lotu sex ríkja viðræðnanna svonefndu, sem fram fara í Kína. Hlé hafði verið á viðræðunum frá því í júní 2004. Að þeim koma fulltúar Norður- og Suður-Kóreu, Kína, Japans, Rússlands og Bandaríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×