Innlent

Klikkaður í rúminu eða nauðgari?

Ertu klikkaður í rúminu eða bara ósköp venjulegur nauðgari? Farin er af stað herferð gegn nauðgunum vegna verslunarmannahelgarinnar sem óðum nálgast en aldrei er of varlega farið. Á síðasta ári komu 113 nauðgunarmál inn á borð til Stígamóta og sjö hópnauðganir. Björg Gísladóttir hjá Stígamótum segir verslunarmannahelgina í raun bjóða þeim sem ætla sér að nauðga upp á kjöraðstæður þar sem mikið er af ungu fólki að skemmta sér en á síðasta ári voru rúmlega 35% þeirra sem nauðguðu eða frömdu sifjaspell 19-29 ára. Þá segir hún svokallaðar lyfjanauðganir koma upp á hverju ári og aldrei sé of varlega farið. Nauðgunarlyfin sem eru notuð gera fórnarlambið sljótt og geta jafnvel valdið minnisleysi. Róhipnól er eitt þessara lyfja en það er ávísað af lækni sem svefnlyf. Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir það mjög gagnlegt. Það sé notað í Evrópu en aftur á móti bannað í Bandaríkjunum vegna möguleikanum á að misnota það. Nú fyrir helgina standa V-dagssamtökin fyrir herferð gegn nauðgunum og má finna veggspjöld á strætóskýlum og auglýsingar í blöðunum sem eiga að vekja fólk til umhugsunar. Markmið herferðarinnar eru skýr að sögn Ingibjargar Stefánsdóttur: að fólk beri virðingu fyrir hvert öðru, þekki muninn á kynlífi og nauðgunum og taki ekki þátt í neinu sem það vilji ekki taka þátt í. Þá hafa Samtökin 78 í samstarfi við Landlæknisembættið ákveðið að dreifa 50 þúsund smokkum á skemmtistaði víðs vegar um landið á næstu þremur mánuðum eða eftir því sem birgðir leyfa. Þetta átak þeirra kostar vel á aðra milljón króna og er liður í því að ýta undir að Íslendingar noti varnir. Það er því vonandi að allir fari varlega um komandi helgi og gangi hægt um gleðinnar dyr.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×