Innlent

Mótmælendur reknir úr tjaldbúðum

Mótmælendum hefur verið gert að yfirgefa tjaldbúðir sínar við Kárahnjúkavirkjun í kjölfar harðra átaka við lögreglu í fyrrinótt. Prestsetrasjóður veitti mótmælendum heimild til þess að tjalda á svæðinu en hún var afturkölluð eftir beiðni frá sýslumanninum á Seyðisfirði. Mótmælendunum hefur verið gefinn frestur til hádegis til þess að taka saman tjaldbúðirnar að sögn Birgittu Jónsdóttur, talsmanns mótmælenda í Reykjavík. Ef fyrirmæli um að yfirgefa svæðið verða ekki virt grípur lögregla til aðgerða að sögn Helga Jenssonar, fulltrúa sýslumanns. Enginn uppgjafartónn er þó í mótmælendum að sögn Birgittu en þeir munu vera að kanna hvort hægt sé að tjalda á öðrum stöðum í nágrenninu. Engar ákvarðanir þess efnis höfðu þó verið teknar í gærkvöld. Helgi taldi í gær hæpið að mótmælendur fái leyfi til þess að tjalda annars staðar. "Heimildin var gefin í þeirri trú að þarna yrðu friðsamleg mótmæli," segir Helgi Jensson, fulltrúi sýslumanns. "Sú hefur hins vegar alls ekki orðið raunin heldur hafa menn beinlínis sýnt af sér gróft ofbeldi." Mótmælendurnir eru ósáttir við framgöngu lögreglu í átökunum í fyrrinótt sem enduðu með því að þrír Bretar voru handteknir og fluttir til Egilsstaða. Þeir segja mótmælin hafa farið friðsamlega fram þar til lögregla kom á staðinn. "Lögregla skipaði bílstjórum vinnuvéla sem mótmælendur höfðu hlekkjað sig við að ræsa þær," segir í yfirlýsingu frá hópnum. Þar segir enn fremur að kona úr hópnum hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi og lögregla haldið manni niðri meðan öryggisverðir gengu í skrokk á honum. Helgi segir ávirðingar um að of harkalega hafi verið gengið fram alrangar. "Auðvitað skapast aukin harka í átökum ef mótmælendur ráðast að lögreglu," segir hann. Gerð var krafa um að þremur Bretanna sem handteknir voru yrði vísað úr landi en Útlendingastofnun telur ekki lagaheimildir til þess. "Það gilda mjög ströng skilyrði um brottvísun borgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og við teljum þeim ekki hafa verið fullnægt," segir Björk Viðarsdóttir, lögfræðingur á Útlendingastofnun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×