Innlent

Verður að efna ólöglega samninga?

Verður að efna ólöglega samninga og sleppa þeir sem þá gera við öll viðurlög ef þeim tekst að fela brotið nógu lengi? Að því spyr Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður og vísar í niðurstöðu Fjármálaeftirlitsins í máli fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum. Sá fær tugi milljóna í vasann, þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi úrskurðað samning þess efnis ólögmætan. Þegar Jóhannes Siggeirsson lét af stöfum hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum í febrúar kom í ljós viðaukasamningur við ráðningarsamning hans sem kveður á um laun í tvö ár eftir að uppsagnarfresti lauk upp á um fjörutíu milljónir króna. Fjármálaeftirlitið gagnrýndi samninginn harðlega, taldi hann lögbrot, en sagði að ekkert væri hægt að aðhafast því málið væri fyrnt. Framkvæmdastjórinn fyrrverandi fær því sitt, tveggja ára laun án nokkurrar vinnu. Á þessu er Kristinn H. Gunnarsson forviða og spyr á heimasíðu sinni hvort það „ ...beri þá að skilja Fjármálaeftirlitið svo, að menn geti gert ólöglega gjörninga og ráðstafað í heimildarleysi eigum sem þeim er trúað fyrir og samt sé það mat Fjármálaeftirlitsins, að bæði verði að efna hina ólöglegu samninga og að þeir sem frömdu lögbrotin sleppi við öll viðurlög ef þeim tekst að fela brotið nógu lengi?“ Kristinn fer fram á að Fjármálaeftirlitið skýri niðurstöðu sína frekar. Hann spyr meðal annars hvort sjóðurinn eigi þá engar kröfur á hendur hinum brotlegu. Nýráðinn forsjtóri Fjármálaeftirlitsins, Jónas Friðrik Jónsson, sagði í samtali við fréttamann í dag að hann myndi ekki svara spurningum Kristins. Hann líti svo á að málinu sé lokið af hálfu Fjármálaeftirlitsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×