Erlent

Líkur á stórslysi 1/100

Eftir um tvo tíma tekur geimskutlan Discovery á loft, að öllu óbreyttu. Það verður fyrsta ferð geimskutlu frá því að skutlan Columbia splundraðist í aðflugi fyrir tveimur árum. Líkurnar á stórslysi af því tagi í þetta sinn eru einn á móti hundrað. Niðurtalningin er hafin fyrir flug Discovery en hún á að taka á loft klukkan 14.39 í dag. Upphaflega stóð til að skutlan færi í þessa ferð fyrir um hálfum mánuði en þá var flugtaki aflýst eftir að mælir bilaði. Hundruð tæknimanna hafa síðan reynt að lagfæra bilunina en án árangurs. Því var að lokum tekin ákvörðun um að rýmka þann ramma sem gefin er fyrir bilanir og önnur frávik og skjóta Discovery samt á loft. Ákvörðunin hefur vakið nokkra furðu og jafnvel hneykslan í ljósi þess að sérfræðingar NASA vissu um vandamál um borð í Columbiu áður en hún fórst 2003. Þá var talið að vandinn væri ekki svo mikill að það breytti neinu. Sjö geimfarar fórust þegar Columbia splundraðist í aðflugi. Í þetta sinn telja sérfræðingar NASA að líkurnar á stórslysi af því tagi séu um einn á móti hundrað. Það mat byggir á reynslu, hermilíkönum úr tölvum og mati sérfræðinga á einstökum þáttum skutlunnar. Það segir sína sögu að fyrir fyrsta slys í sögu geimskutlanna, þegar Challenger fórst 1986, var talið að líkurnar á stórslysi væru einn á móti hundrað þúsund, svipað og hjá farþegaþotum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×